stig bataferlisins
Það eru nokkur stig í bataferli eftir heilahristing. Í fyrsta áfanganum gróa sýnilegu meiðsli þín nægilega mikið til að gera þér sannarlega grein fyrir tilfinningalegum og vitsmunalegum skaða sem heilahristingurinn hefur á líf þitt. Oft tekur þú eftir þessum breytingum aðeins þegar þér líður nógu vel til að halda áfram daglegu amstri og stendur frammi fyrir sönnunargögnum um að þú sért ekki sama manneskja og áður. Sem hluti af þessu stigi bataferlisins, gætir þú fundið fyrir margbreytilegum tilfinningum, þar með talið skort á vitund, afneitun, reiði, þunglyndi og sorg.
Annar áfangi bataferlisins - og oft sá erfiðasti - er að sættast við
að þú verðir aldrei sú sem þú varst. Það verður erfiðara að takast á við þessa vitneskju í hvert skipti sem þú færð innsýn í „gamla sjálfið“ þitt og viðurkennir að sumt af fyrri getu þinni er utan seilingar. Þú býrð yfir mikilli óvissu, þú átt í erfiðleikum með að öðlast færni með nýjum leiðum til að gera hlutina og þú lendir
í bakslögum þar sem þú veltir því fyrir þér hvort þú munir einhvern tímann verða betri. Það getur verið erfitt að leyfa öðrum að aðstoða þig, en stuðningskerfi sem inniheldur fjölskyldu og vini er ómetanlegt á tímabilum varnarleysis og sorgar sem einkenna annað stig bata.
Þegar þú samþykkir smám saman breytingarnar á sjálfum þér muntu fara í þriðja stig bataferlisins sem er endurheimt sjálfstæðis og tilfinning fyrir stjórn. Þetta stig kemur t.d. þegar þú öðlast aftur færni til að keyra bíl, halda jafnvægi á tékkbókinni eða muna síma-númer án þess að skrifa það fyrst. Þú uppgötvar að viðbrögð þín við aðstæðum eru mjög frábrugðin þeim sem þú varst með áður og þú munt líka læra að það eru atriði í nýjum persónuleika þínum sem þér líkar vel við. Þú munt endurheimta sjálfstraust þitt með því að ná minniháttar afrekum, læra að sætta þig við takmarkanir þínar og byrja að kanna áður ónýtta möguleika. Þú munt enn og aftur taka framförum, þó á annarri og ef til vill ójafnari og ekki eins greiðfærri leið og áður.
Bati eftir heilahristing er ólíkur því að jafna sig eftir veikindi. Þú getur ekki sagt í upphafi hvenær þér mun líða betur, hvernig þú ættir að láta tímann líða eða hversu mikla umhyggju þú vilt frá öðrum. Í staðinn glímir þú við ófyrirséðan bataferil og við vini og vandamenn sem virðast ofverndandi eina mínútuna og ýta síðan verulega á þig þá næstu. En þú munt ná jákvæðri niðurstöðu þegar þú sleppir „gömlu manneskjunni“ og treystir nýjum eiginleikum þínum og ferð að fá meira sjálfstraust og sjálfsöryggi á ný.