GAGNLEGIR OG JAFNVEL NAUÐSYNLEGIR HLUTIR Í ENDURHÆFINGARFERLINU

 

Það koma margir hlutir upp í huga mér þegar ég hef fengið spurningar um hvaða hlutir gagnist manni mjög vel í endurhæfingarferlinu. Því hef ég ákveðið að setja þá hluti upp í lista sem hafa gagnast mér best í minni endurhæfingu:

 

Heilaleikir í símanum

peak.jpg
LLUMO.jpg

Ég mæli með þessu fyrir alla sem ég þekki, ekki einungis fyrir þá sem fá heilahristing.
Ég las einhvern tímann grein um hvað það væri gott að æfa heilann reglulega með því
til dæmis að leysa krossgátur, sudoku eða með sérhæfðum heilaleikjum sem æfa margvísleg svið. Fyrir slysið var ég búin að vera reglulega í heilaleikjum í símanum mínum sem heita Peak og Lumosity. Þetta hjálpaði mér mjög mikið að sjá eftir slysið þá hvaða svið höfðu raskast eftir heilahristinginn. Ég var til dæmis með 948/1000 í heildarstigum í Peak en eftir slysið var ég komin niður í 123. Að sjá þessar niðurstöður eftir slysið var mjög átakanlegt, aftur á móti ákvað ég að setja mér sérstök heila-æfingamarkmið til þess að geta fylgst með árangri mínum í heilaleikjunum. Núna
nánast ári eftir slysið er ég farin að sjá verulegan árangur í heilaleikjunum. Í fyrstu var ég næstum því búin að gefast upp því þegar ég byrjaði að spila heilaleikina næstum því
á hverjum degi þá lækkuðu alltaf heildarstigin mín. Það var bara eins og ég væri að verða verri og verri, og það var ekki fyrr en mánuði seinna sem ég var loksins komin á sama stað í 123 og fór svo í mjög litlum skrefum að færast ofar og ofar með heildarstigin mín.

Það sem er aftur á móti svo frábært við þessi öpp er að þau æfa svo mörg svið. Þau þjálfa athygli og einbeitingu, andlega fimi (mental agility), tungumál (eini gallinn er sá að það þjálfar ensku en ekki íslensku), minni, samhæfingu, færni til að leysa vandamál og tilfinningar. Því mæli ég hiklaust með að þú æfir þig í heilaleikjum, hvort sem þú hefir hlotið heilahristing eða ekki. Ég sjálf keypti mér “pro version/premium” af Peak til að geta æft mig eins mikið og eins oft og ég mögulega gat, ég mæli eindregið með því og
ég hef ekki séð eftir þeim pening.

 
 

Eyrnatappar og dökk sólgleraugu

 

Í mínu tilfelli eru þetta hlutir sem ég get ekki verið án. Eftir minn heilahristing hef ég verið með alveg ótrúlega mikla ljósfælni. Því var alveg nauðsynlegt fyrir mig að reyna að finna mjög dökk sólgleraugu hér á Íslandi. Aftur á móti fann ég engin gleraugu sem voru eins dökk og ég vildi að þau væru, þannig að ég ákvað að leita á netinu og fann þau strax á Amazon. Ég hef þau alltaf í veskinu mínu og þarf mjög oft að draga þau upp þegar ég fer í mjög erfiðar aðstæður eins og t.d. í Kringlunni. Þau hjálpa mér mjög mikið þegar ég finn fyrir því að ljósfælnin sé að skapa ákveðinn hausverk hjá mér og því á ég það oft
til að setja gleraugun upp á stöðum sem ég sé að ég muni fá hausverk eftir nokkrar mínútur. Því mæli ég eindregið með svona dökkum sólgleraugum fyrir fólk með mikla ljósfælni. Aftur á móti er ekki æskilegt að vera allt of mikið með dökk sólgleraugu því
þá ertu ekki að vinna í því bæta ljósfælni þína og að æfa heilann að venjast mismunandi birtustigum. Aftur á móti geta dökku sólgleraugun verið gott hjálpartæki þegar þú ert
í mjög erfiðum aðstæðum. Ef þú færð slæman höfuðverk í aðstæðum sem þú getur ekki farið út úr og þegar þú ert að fyrirbyggja höfuðverk t.d. með að setja gleraugun á þig áður en þú ferð í búð. Smám saman fer maður að geta minnkað notkun á sólgleraugunum.

Eyrnatappar eru fyrir mér eins og dökku sólgleraugun algjörlega nauðsynleg. Ég var fyrst með þessa klassísku eyrnatappa en fékk eiginlega alltaf verki í eyrun og var mjög aum eftir að hafa verið með þá í langan tíma. Ég fór því í apótek til að leita að betri eyrnatöppum og fann þá bæði sérstaka sundtappa og síðan minni tappa sem ég nota hvar sem ég er og sem ná að útiloka allan hávaða. Ég átti það til að nota bara tappana þegar ég var kominn með hausverk út af áreiti sem fór í mig, en með tímanum lærði ég að þekkja og vita við hvaða aðstæður ég þarf að setja í mig eyrnatappa. Til að mynda set ég alltaf sundeyrnatappana í mig í bílnum áður en ég fer inn í sundlaugina og tek þá ekki úr mér fyrr en ég er komin aftur út í bíl. Sama gildir um þegar ég fer í matvörubúð, verslunar-miðstöð, bíó og á fleiri staði þar sem áreitið fer alveg virkilega illa í mig, þá set ég litlu tappana í mig áður en ég fer í þær aðstæður. Eyrnatapparnir gera mér kleift að fara
í aðstæður sem ég myndi vanalega aldrei treysta mér í og því mæli ég líka eindregið
með þeim fyrir fólk sem er mjög næmt fyrir hljóðáreiti. Smám saman getur maður síðan prófað að fara í þær aðstæður sem þú gast fyrst ekki hugsað þér að fara í án eyrnatappa og séð hvað þú þolir núna að gera án eyrnatappa. Ég æfði mig reglulega í sérstökum áreitisæfingum eins og til dæmis bara það að fara í Smáralind með eyrnatappa og dökk sólgleraugu og labba í kringum 45-60 mínútur. Með tímanum fór ég að hætta að þurfa sólgleraugun út af því að ég var á einhvern hátt búin að venjast aðstæðunum betur og
fór að geta höndlað það að venjast birtustiginu. Í dag er ég farin að geta sleppt eyrna-töppunum á góðum degi en get þá alls ekki verið svona lengi í einu, en ég veit að með tímanum þá þjálfast þetta allt upp. 

Ég er ekki að segja að maður eigi bara að kaupa dökk sólgleraugu og eyrnatappa og nota það alltaf til að losna við eða koma í veg fyrir einkenni í slæmum aðstæðum, heldur er ég að benda á þessi hjálpartæki sem hjálpa við að geta tekið fyrstu skrefin í þá átt að reyna að aðlagast erfiðum aðstæðum. Smám saman nær heilinn að aðlagast þessum aðstæðum ef maður vinnur í því að þjálfa þetta upp, fyrstu skrefin geta verið með þessum hjálpar-tækjum en með tímanum og æfingunni þá þjálfast heilinn í að geta höndlað mun betur þessar aðstæður sem voru mjög erfiðar.

 
 

Productive app

pr.png

Ég gjörsamlega dýrka þetta app og ég veit ekki hvar ég væri án þess í minni endurhæfingu. Eflaust finnst sumum þetta ekkert þægilegt en ég mæli eindregið með því. Það hefur hjálpað mér mjög mikið við það að setja upp plan fyrir hvern dag. Ég átti mjög erfitt með að skipuleggja og að forgangsraða hlutum sem ég ætlaði að gera á hverjum degi. Þetta app kom eins og himnasending
af skipulagsaðstoð fyrir mig. Ég get stillt upp öllum sjónþjálfunar-, jafnvægis-, og sjúkraþjálfara-æfingunum mínum, ásamt því setja inn áreitisæfingar sem ég geri nokkrum sinnum í mánuði, hreyfingu dagsins (í mínu tilfelli hjól/sund/ganga), lyfin mín og félagslega hluti. Þar sem ég fæ mikla ánægju af því að geta einfaldlega hakað við hluti eða markmið sem ég klára er þetta app algjör snilld fyrir mig. Ekki einungis út af því heldur einnig út af minniserfiðleikum. Ég man ekki alltaf hvort að ég sé búin að gera hitt og þetta, og það er svo ótrúlega þægilegt að geta séð þá hluti sem ég er búin
að tékka við og veit þá fyrir vissu hvað ég hef klárað. Fyrir neðan eru skjáskot úr appinu í mínum síma þar sem hægt er að sjá hvernig uppstillingar á appinu geta verið.

 
 

Kælipokar

 

Mjög nauðsynlegt atriði fyrir mig því ég vakna oft nokkrum sinnum á nóttinni með hræðilega höfuðverki og þarf að sækja kælipoka. Mér fannst samt alltaf ömurlegt að þurfa alltaf að sækja tvo kælipoka og band til að vefja þeim yfir höfuðið því það tók svo
á að þurfa að taka svona langan tíma að setja þá á mig. Ég þarf líka alltaf að eiga helst 3-4 kælipoka því eftir fyrsta verkjakastið mitt þá tek ég vanalega einn kælipoka, svo þegar næsta höfuðverkjakast kemur þá er sá kælipoki orðinn volgur og ég þarf að sækja nýjan og fer þá með fyrsta pokann í frystinn. Þriðja skiptið þá þarf ég enn og aftur nýjan kælipoka og það er svo ekki fyrr en í fjórða sinn sem ég nota fyrsta pokann aftur. Það
var ekki fyrr en ég var að skoða kælipoka á Amazon að ég tók eftir því þú getur keypt hlut sem mætti kalla einhvers konar kælipokahjálm. Þvílík snilld að geta bara á fljótan hátt vafið þessu um höfuðið og það heldur góðum þrýstingi og kælingin sjálf endist
í lengri tíma. Þetta hefur svo sannarlega bætt aðeins upplifun mína á höfuðverkjaköstum. Því mæli ég eindregið með þessum svokölluðum kælipokahjálmi, litlum augnkælipokum til þess að leggja yfir augun og einnig hefðbundnum kælipokum sem ná oft að dempa höfuðverkjaköstin sem ég fæ.

 
 

Sérstakir koddar fyrir hálsinn

 

Það skiptir gríðarlega miklu máli að vera með góðan stuðning undir hálsinum, þá sérstaklega ef þú fékkst hálsáverka við heilahristinginn. Ef það er ekki nógu góður stuðningur undir hálsinum, getur myndast mikill stífleiki sem getur í kjölfarið valdið
því að sum einkenni versna (færð til dæmis oftar eða verri höfuðverki o.fl.). Því skaltu huga vel að því hvort þú sért að sofa með góðan kodda, því svefninn skiptir alveg gríðarlega miklu máli fyrir bata eftir heilahristing. Ég átti sjálf til að stífna verulega
í hálsinum, öxlunum og alveg niður í bak og hendi og ákvað því að fá lánaðan svona
púða sem er aðlagaður að hálsinum. Í dag á ég erfitt með að sofa án þess að hafa þennan púða, þannig að ég ákvað að kaupa minn eiginn og hef ekki séð eftir því. Hér að neðan sérðu dæmi um sérstaka púða eða kodda fyrir hálsinn. Ég á bæði púðann sem er lengst til vinstri og sá sem er hliðina á honum og þeir virka alveg ótrúlega vel. Ég pantaði koddann sem er lengst til vinstri á Amazon (eins og svo marga hluti sem ég hef nú þegar nefnt) en hægt er að finna góða púða í verslunum sem selja kodda og ýmsar heilsuvörur.

 
 

Aðgangur að Hljóðbókasafni & Speechify app

 

Ef þú átt í erfiðleikum með að lesa þá myndi ég í fyrsta lagi láta lækni eða sjúkraþjálfara kanna augnhreyfingarnar þínar. Sjónin mín breyttist alveg gríðarlega mikið eftir heila-hristinginn, ég sé ótrúlega illa frá mér, átti í miklum erfiðleikum með að ná fókus og fleira. Í dag nota ég gleraugu dagsdaglega vegna nærsýni og hef þurft að vera í sjón-þjálfun að æfa allskonar sjónhreyfingar og sérhæfðar æfingar til að þjálfa upp augun.
Því þurfti ég að leita að nýjum aðferðum í staðinn fyrir lestur þegar ég þurfti að lesa í skólanum. Ég er með aðgang að Hljóðbókasafni sem er mjög aðgengilegt, ég nota það mest bara í símanum mínum. Einnig hef ég þurft að lesa mikið af enskum kennslu-bókum og því hefur app sem heitir Speechify hjálpað mér gríðarlega mikið. Þú þarft bara að taka mynd af textanum sem þú vilt láta lesa upphátt fyrir þig og þá er það komið. Það er einnig hægt á flestum tölvum nú til dags að ýta á Speech - Start Speaking og þá les tölvan upphátt fyrir þig þann texta sem þú vilt. Svo er líka hægt að biðja aðstandanda,
ef möguleiki er á því, að lesa upphátt fyrir þig ef hitt reynist of erfitt.

 
 

Bækur og fræðsla

 

Ég er sú týpa sem þarf að afla mér sem mests fróðleiks um þá hluti sem ég vil fræðast um. Það reyndist mér mjög erfitt eftir slysið að afla mér upplýsinga þar sem ég gat nánast ekkert lesið. Það var ekki fyrr en mörgum mánuðum eftir slysið sem ég ákvað að reyna að skoða eitthvað á netinu, en ég átti mjög erfitt með að finna góðar upplýsingar þar. Ég ákvað þá að skoða hvort það væru einhverjar bækur um eftirheilahristings-heilkenni á Amazon og fann þar nokkrar bækur. Ég gat samt ekkert lesið þær í einum hvelli. Ég hef verið að lesa alltaf í þann tíma sem ég get og þarf oft að lesa hluti aftur eða glósa eitthvað á blað til að reyna að muna betur. Aftur á móti, eftir að ég var búin að lesa mér þó nokkuð til um eftirheilahristingsheilkenni og aðra “væga heilaáverka” (mild traumatic brain injury eða mTBI) þá fór ég betur að skilja einkenni mín og geta farið
eftir hagnýtum ráðum og tillögum. Ég fann líka mikinn mun á að lesa ekki einungis um líkamlega þætti heldur einnig um andlega og tilfinningalega þætti. Mér finnst mér ganga betur núna í endurhæfingunni minni eftir að ég fór að fræðast sjálf um og skilja betur það sem ég er að takast á við. Það var líka stór partur af minni ákvörðun að ákveða að gera þessa vefsíðu til að deila þeim fróðleik á íslensku og hafa einnig upptökur með, svo efni heimasíðunnar sé aðgengilegt fyrir fólk sem á í erfiðleikum með lestur, rétt eins og ég. Fyrir neðan eru bækur sem hafa reynst mér mjög gagnlegar og sem ég hef notað sem heimildir fyrir þessa vefsíðu.

 
 

Upphækkun og bókastandur

 

Það skiptir sérstaklega miklu máli fyrir einstaklinga sem fá áverka á háls að hafa  vinnu- og lærdómsaðstæður réttar, þ.e. rétta hæð, réttar stillingar ofl. Ég átti, eins og fram hefur komið, mjög erfitt með lestur og þá sérstaklega þegar ég var í rangri líkamsstöðu með hálsinn. Vinur bróður míns sem hafði fengið heilahristing fyrir nokkrum árum var svo yndislegur að lána mér bæði upphækkun og bókastand. Ég fann verulegan mun á hálsinum mínum mjög fljótt eftir að ég byrjaði að nota upphækkunina og bókastandinn. Það er fremur auðvelt að búa sér til upphækkun úr t.d. bókum eins og sjá má á mynd fyrir neðan, en það er einnig hægt að kaupa sérstaka upphækkun. Því mæli ég eindregið með því að hugsa vel um hvort að þú sért í réttri líkamsstöðu þegar þú ert að lesa eða vinna.

 
 

Sjónþjálfunarvefsíða

 

Ef þú átt í erfiðleikum með ákveðnar augnhreyfingar eða ef sjúkraþjálfarinn þinn eða læknir taka eftir einhverju óvenjulegu í tengslum við sjónina þína (t.d. ef þú átt erfitt með að sjá í fókus, ert með nistagmus við það að t.d. fylgja eftir handarhreyfingum o.fl.) þá gæti verið sniðugt að þjálfa sjónina. Sjúkraþjálfarinn minn benti mér á vefsíðu sem heitir eyecanlearn.com og undir því fer maður í tracking, út frá því getur maður valið hvað þú vilt æfa. Ég þurfti til dæmis mjög mikið að æfa pursuits - lady bug walk, sem æfir sjón-hreyfinguna að fylgja eftir línu rétt eins og maður gerir þegar maður er að lesa. Ég mæli eindregið með því að kíkja á þessar æfingar. Ef þú færð aukin einkenni við það að gera þessar æfingar getur það verið merki um að það þurfi að þjálfa þetta betur. Aftur á móti er best að gera eða prófa þessar æfingar á þeim tíma dags þegar þér líður best.
Í samráði við lækni eða sjúkraþjálfara er síðan hægt að meta hvort það væri ráðlagt fyrir þig að fara í sjónþjálfun.