ENDURHÆFINGARTEYMI
Það sem skiptir miklu máli í endurhæfingu er að hafa gott teymi sem leiðir mann áfram og sem sérhæfir sig á mismunandi sviðum sem snúa að heilaáverkum. Heilaskaðateymið á Grensási samanstendur af:
læknum
Endurhæfingarlækningar er sú sérgrein lækninga sem sérhæfir sig í svokallaðri læknisfræðilegri endurhæfingu. Með því er átt við aðferð þar sem saman fara læknis-fræðilegar, sálfræðilegar, félagslegar og tæknilegar úrlausnir sem miða að því að hver einstaklingur nái mestri mögulegri færni og lífsgæðum og geti viðhaldið þeim.
Verkefni lækna á endurhæfingardeild eru mjög fjölbreytt:
Rannsóknar- og greiningarvinna, í þeim tilvikum þar sem henni hefur ekki verið lokið fyrir komu á endurhæfingardeild
Ráðgjöf á deildum Landspítala
Vinna í meðferðarteymum og fagteymum
taugasálfræðingi
Taugasálfræðingar meta hugrænar afleiðingar heilaskaða af völdum áverka eða sjúkdóma. Taugasálfræðilegt mat byggir á stöðluðum prófum og matslista. Niðurstöður gefa til kynna taugasálfræðilega styrkleika og veikleika sjúklings, m.a. hvað varðar minnisþætti, einbeitingu, athygli, úthald, sjálfsstjórn, hraða í hugarstarfi og skipulag. Einnig er lagt mat á aðlögunarfærni og líðan einstaklingsins. Taugasálfræðileg ráðgjöf, meðferð og endurhæfing byggir á niðurstöðum matsins.
Með markvissri hugrænni endurhæfingu er hægt að ýta undir bata. Verið er að þróa nýjar leiðir í þessu sambandi, m.a. með sérhæfðum tölvuforritum.
hjúkrunarfræðingi
Hjúkrun á endurhæfingardeild byggir á fjölskylduhjúkrun. Hver sjúklingur fær sinn umsjónarhjúkrunarfræðing og sjúkraliða
sem eru ábyrgir fyrir hjúkrunarmeðferð meðan á meðferð stendur. Með því er leitast við að tryggja samfellu í þjónustu, einfalda tjáskipti og styrkja tengslamyndun og traust.
Hjúkrunarfræðingar og sjúkraliðar aðstoða sjúklinginn við alla grunnþætti daglegs lífs, í því skyni að viðhalda eða auka líkamlega, andlega og félagslega færni og aðstoða hann og fjölskylduna við aðlögun að breyttum aðstæðum. Einnig aðstoða þeir við að yfirfæra yfir í daglegt líf, það sem lærst hefur með þjálfun.
sjúkraþjálfara
Með nákvæmri skoðun og greiningu, meta sjúkraþjálfarar hreyfifærni, vöðvastyrk, liðleika, ástand húðar, jafnvægi, úthald, þörf fyrir hjálpartæki og fleira. Meðferð sjúkraþjálfara er einstaklingsmiðuð og byggir á niðurstöðum þessa mats. Hún felst meðal annars í einstaklingsþjálfun, hópæfingum, fræðslu og ráðgjöf bæði til sjúklings og aðstandenda, heimilisathugun og vali á hjálpartækjum. Meðferðin miðar að því að byggja upp almennt ástand sjúklings ásamt því að hvetja hann til að taka ábyrgð á
eigin heilsu. Við útskrift aðstoðar sjúkraþjálfari við að skipuleggja áframhaldandi sjúkraþjálfun eða heilsurækt eftir þörfum
hvers og eins.
iðjuþjálfa
Iðjuþjálfi er sérmenntaður heilbrigðisstarfsmaður sem vinnur að þjálfun og endurhæfingu fólks með skerta líkamlega, andlega eða félagslega getu. Einstaklingar sem koma í endurhæfingu á Grensás eftir slys eða veikindi, eiga flestir í erfiðleikum með að takast á við sitt daglega líf. Hlutir sem áður voru einfaldir, eins og að elda mat, vinna vinnuna sína, eiga í félagslegum samskiptum, keyra bíl og stunda áhugamál geta reynst flóknir og óyfirstíganlegir. Sérþekking iðjuþjálfa felst í því að greina styrkleika einstaklinga og hvað reynist þeim erfitt við dagleg verk, finna leiðir til að yfirstíga þessa erfiðleika og þjálfa aftur upp færni til að takast á við daglegt líf. Samhliða færniþjálfun til eigin umsjár, heimilisstarfa, atvinnu og tómstunda er farið í heimilis- og vinnustaðaathuganir og mat á akstursfærni þegar þörf krefur. Auk þess eru veittar ráðleggingar við val og útvegun hjálpartækja.
sálfræðingi
Veikindi og slys hafa margbreytileg áhrif bæði á sjúkling og fjölskyldu hans. Hlutverk og samskipti innan fjölskyldunnar geta breyst. Framtíðaráform geta breyst og vinna þarf úr tilfinningalegum og félagslegum afleiðingum áfalls. Sumum reynist erfitt
að glíma við slíkt andstreymi upp á eigin spýtur. Í þeim tilvikum getur sálfræðilegur stuðningur eða meðferð skipt verulegu máli. Starf sálfræðings felst í að meta andlega líðan, veita meðferð og stuðning. Andlegt jafnvægi skiptir miklu máli varðandi það hvernig til tekst að vinna úr þeirri röskun sem verður á lífinu í kjölfar sjúkdóms eða slyss.
talmeinafræðingi
Talmeinafræðingar eru með sérmenntun í að greina og meðhöndla talgalla og máltap. Í talþjálfun er unnið með vandamál sem varða mál, tal eða kyngingu. Mál, tal og rödd eru metin með sérstökum prófum. Talmeinafræðingar aðstoða sjúklinga með mál-
og talmein við að ná sem bestri færni til tjáskipta. Ráðgjöf og samvinna við aðstandendur er mikilvægur þáttur í endurhæfingu sjúklinga með málstol. Boðið er upp á hópmeðferð fyrir sjúklinga sem eru þvoglumæltir. Talmeinafræðingar sinna sjúklingum sem eiga í erfiðleikum með að tyggja eða kyngja. Gerðar eru m.a. sérhæfðar kyngingarrannsóknir í samvinnu við háls-, nef- og eyrna-lækna og sérfræðinga í myndgreiningu. Meðferð getur falist í breytingum á áferð fæðu, ýmsum aðferðum við að auka öryggi kyngingar og sérhæfðri þjálfun.
Það eru einnig fleiri starfstéttir sem vinna í nánum tengslum við heilaskaðateymið á Grensás. Til dæmis:
félagsráðgjafi
Félagsráðgjafi á endurhæfingardeild veitir einstaklingum og fjölskyldum þeirra stuðning og ráðgjöf til að takast á við breyttar aðstæður sem koma upp í kjölfar veikinda eða slysa. Félagsráðgjafi veitir upplýsingar um réttindi og styður sjúklinginn og fjölskylduna eftir þörfum. Starf félagsráðgjafa byggir á sérþekkingu á fjölskyldum, félagslegum úrræðum og samfélaginu
í heild. Við úrlausn mála er félagsráðgjafinn talsmaður og tengiliður sjúklinga við hinar ýmsu stofnanir eins og félagsþjónustu sveitarfélaga, svæðisskrifsstofur um málefni fatlaðra, Tryggingastofnun, lífeyrissjóði, dagvistir, dvalar- og hjúkrunarheimili, vinnuveitendur og aðra þá sem tengjast viðkomandi sjúklingi.
Heimildaskrá
Landspítali Grensási. (e.d.). Fagstéttir. Sótt 13. nóvember 2019 af https://www.landspitali.is/grensasdeild/forsida/um-deildina/fagstettir/
Árnastofnun. (e.d.). Iðjuþjálfi. Sótt 13. nóvember 2019 af https://malid.is/leit/i%C3%B0ju%C3%BEj%C3%A1lfi
Árnastofnun. (e.d.). Talmeinafræðingur. Sótt 13. nóvember 2019 af https://malid.is/leit/talmeinafr%C3%A6%C3%B0ingur